Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir allar ásakanir þess efnis að hann hafi falsað skjöl tengdum lána- og veðsamningum í Vafningsmálinu svokallaða fráleitar. DV fullyrðir í dag að umboðin sem Bjarni fékk til að ganga frá viðskiptum Vafnings fyrir hönd eignarhaldsfélaga skyldmenna sinna, Hrómundar, Hafsilfurs og BNT, móðurfélags N1, hafa verið fölsuð og þau hafa verið veitt vegna viðskipta sem sögð hafa átt sér stað þremur dögum áður.

Bjarni segir um pólitískar árásir að ræða vegna máls sem hann hafi mælt fyrir á Alþingi.

Í Vafningsmálinu fólst að félagið tók við láni frá Glitni til að endurgreiða Milestone, félagi að mestu í eigu þeirra Karls og Steingríms Wernerssonar, rúmlega tíu milljarða króna sem félagið hafði notað til að endurgreiða bandaríska fjárfestingabankanum lán Þáttar International hjá bandaríska fjárfestingabankanum Morgan Stanley fjórum dögum áður. Morgan Stanley hafði veitt Þætti International lánið til að fjármagna hlutabréfakaup í Glitni. Morgan Stanley hafði gjaldfellt lánið nokkrum dögum áður.

Yfirlýsing Bjarna Benediktssonar

„Í tilefni af fréttum um dagsetningar skjala í svonefndu Vafningsmáli vill undirritaður taka eftirfarandi fram.

Í vitnaskýrslu, sem tekin var tæpum fjórum árum eftir undirritun, greindi ég frá því að ég hefði að öllum líkindum skrifað undir skjölin, fyrir hönd þriðju aðila, á bilinu 8. -12. febrúar 2008. Samkvæmt gögnum sem ég hef í millitíðinni aflað mér má ætla að ég hafi skrifað undir 11. eða 12. febrúar. Þess má geta að ég hafði enga vitneskju um lánveitingar til Milestone í tengslum við þetta mál fyrr en það varð opinbert í desember síðastliðnum. Allar ásakanir um að ég hafi falsað skjöl eru fráleitar.

Dagsetning skjalanna var forskrifuð á þau skjöl sem ég skrifaði á og endurspeglar einfaldlega vilja þeirra sem að þeim standa um að samkomulag þeirra skuli gilda frá þeim degi. Þetta er alvanalegt, ekki síst þegar safna þarf undirskriftum frá fleiri en einum aðila á skjal. Í því er ekkert ólöglegt á nokkurn hátt. Ef grunur léki á um skjalafals hefði verið ákært fyrir slíkt brot, en því er ekki að skipta.

Lánveiting þessi fór í opinbera rannsókn. Þeirri rannsókn er nú lokið. Hefur tveimur starfsmönnum Glitnis verið birt ákæra fyrir að hafa farið út fyrir umboð sitt. Enn hefur dómur ekki gengið í því máli.

Undirritaður hefur á engu stigi málsins legið undir grun um lögbrot. Enginn hefur verið ákærður fyrir skjalafals í tengslum við málið. Eins og ég hef margítrekað sagt hafði ég enga aðra aðkomu að málinu en þá að aðstoða hluthafa við að verða við kröfum bankans um tryggingar.

Hér er enn og aftur um innihaldslausar pólitískar árásir í minn garð að ræða. Augljóst er að þær eru settar fram nú fyrst og fremst í tilefni af ákveðnu þingmáli sem ég hef mælt fyrir á Alþingi.“