*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 28. júní 2013 12:09

Bjarni Ármannsson dæmdur fyrir skattsvik

Fyrrverandi bankastjóri Glitnis þarf að greiða 35 milljónir króna í sekt fyrir að hafa vantalið tekjur sínar um rúmar 200 milljónir.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Aðrir ljósmyndarar

Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, hlaut rétt fyrir hádegi í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur skilorðsbundinn dóm í hálft ár og til greiðslur á rúmlega 35 milljóna króna sektar vegna skattalagabrota. Hann var ekki viðstaddur dómsuppsöguna í dóminum í morgun. 

Bjarna er gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2007 til 2009 og vantalið fjármagnstekjur upp á rúmar 200 milljónir króna af a.m.k. 29 gjaldmiðlaskiptasamningum, vaxtatekjum og arði af hlutabréfum. Samkvæmt ákæru á hendur Bjarna er honum gefið að sök að hafa komið sér undan því að greiða rétt rúmar 20 milljónir króna. Farið var fram á að Bjarni greiddi þrefalt skattaundanskotið en sektin er rúmlega tvöföld. Allt að sex ára dómur getur legið við brotum af þessu tagi. 

Bjarni sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna málsins í kjölfar umfjöllunar vb.is af ákæru sérstaks saksóknara gegn honum í byrjun árs að enginn ágreiningur sé um að gerð hafi verið mistök í skattframtalsgerðinni og hann þegar greitt það sem var vanframtalið með tilheyrandi álagi skattyfirvalda.

„Það kom mér verulega á óvart að málið færi í ákærumeðferð hjá sérstökum saksóknara, bæði vegna þess að ég leiðrétti mistökin sem voru gerð og gerði upp skattskuldina með viðeigandi álagi,“ sagði Bjarni.