Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, fær 21,4 milljónir króna í arð vegna afkomu olíuverslunarinnar N1 í fyrra. N1 hagnaðist um 637,9 milljónir króna í fyrra og leggur stjórn félagsins til við næsta aðalfund að hluthöfum verði greiddur út arður upp á 1.650 milljónir króna. Það er tæplega þrefaldur hagnaður verslunarinnar.

Bjarni á 1,3% hlut í N1 í gegnum einkahlutafélagið Landsýn ehf eða sem nemur 13.001.844 hluti. Miðað við gengi hlutabréfa N1 í Kauphöllinni í dag nemur markaðsverðmæti hluta félagsins 236 milljónum króna.

DV fjallar m.a. um málið í dag og rifjar upp að hlutabréfaeign Bjarna er til komin eftir að hann eignaðist skuldabréf á N1 sem var 100 til 200 milljóna króna virði. Eftir að lánardrottnar N1 tóku félagið yfir var kröfunum breytt í hlutabréf.