Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur áhyggjur af því að viðskiptabankarnir láni of mikið til íbúðakaupa. Of mikil áhættusækni geti komið bönkunum í koll.

Heiðar Már Guðjónsson skrifaði fyrir nokkrum árum blaðagrein sem hann kallaði Hrunið 2016. Þar varaði hann við því að fjármagnshöft myndu skapa bólu á hlutabréfamarkaði og fasteignamarkaði sem á endanum myndi springa. Hefurðu áhyggjur af því að það geti farið illa ef það verður ekki brugðist nógu fljótt við til að afnema fjármagnshöftin?

„Ég er sammála því að gjaldeyrishöft eru skaðleg til lengri tíma. Og ég er sammála því að af óbreyttum greiðsluferlum steðjar hætta að íslenska hagkerfinu. En samningar Landsbankans fyrir stuttu sýna að það er hægt að endurfjármagna þegar útgefnar skuldbindingar. Nú er ég ekki að segja að það sé sjálfsagt að verða við þeim skilmálum sem lánveitendur í því tilviki hafa sett fyrir

endurfjármögnuninni, en með því að efla útflutning í landinu og halda þannig á spilunum að þessar skuldbindingar, sem menn hafa undirgengist, færist fram í tíma þá tel ég að þetta sé vel viðráðanlegt. Stóra verkefnið er að verja stöðugleikann og það tel ég að sé raunhæft að gera, þótt það verði alltaf krefjandi,“ segir Bjarni.

Hann segist aftur á móti hafa miklar áhyggjur af því hversu brattir bankarnir hafa verið í því að lána. „Þessi háu lánahlutföll finnst mér vera umhugsunarefni. Við þekkjum það frá árunum fyrir fall bankanna að of áhættusækin lánastarfsemi getur komið bönkunum í koll, valdið eignabólu og mjög skaðlegum áhrifum á íbúðalánamarkaðnum. Það er engin þörf fyrir íbúðaverðsbólu á Íslandi í dag. Bara alls ekki. Við þurfum ekki aðra húsnæðisbólu,“ segir Bjarni.

Ítarlegt viðtal er við Bjarna Benediktsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .