Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þá vænta erlendir eigendur krónueigna að auðveldara verði að semja við nýja ríkisstjórn í kjölfar kosninganna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið að afstaða íslenskra stjórnvalda hafi verið skýr, en möguleikinn á veikri fjölflokkaríkisstjórn gefi þeim hugsanlega væntingar um að hræðsluáróður skili þeim betri niðurstöðu.

Lögfræðingur sjóðanna segir nýja stjórn hljóta að vilja losna við málið

Lögfræðingur tveggja af fjórum sjóðunum, sem nú hefur sent inn kvörtun um mismunun til EFTA, segir að ný stjórn hljóti að spyrja sig hvort þörf sé á að sýna jafnmikla óbilgirni og sú sem nú situr og vilji ekki hafa þetta mál hangandi yfir sér til lengdar.

Saman eiga sjóðirnir fjórir íslensk skuldabréf fyrir andvirði um 1,5 milljarða Bandaríkjadala eða um 10% af VLF Íslands.

Hræðsluáróður gæti haft áhrif

„Við höfum ávallt verið skýr á því að við myndum ekki stíga nokkurt það skref sem myndi ógna stöðugleika hér heima fyrir,“ segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið, en spurður út í hvað skýri væntingar um að breytt stjórnarmynstur breyti afstöðu stjórnvalda segir hann.

„Það eina sem mér dettur í hug er að veik margra flokka ríkisstjórn gefi þeim von um að einhvers konar hræðsluáróður gæti fælt menn til að endurskoða þá afstöðu sem við höfum verið að fylgja.“

Stjórnarandstaðan segja afstöðu ólíklega til að breytast

Einnig ræðir blaðið við Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, Benedikt Einarsson, formann Viðreisnar og Ástu Guðrúnu Helgadóttur oddvita Pírata í Reykjavík suður sem öll telja ólíklegt að afstaðan breytist í kjölfar kosninga.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, svarar því til að hann hafi ekki kynnt sér málið nægilega vel en hvorki náðist í Oddnýu G. Harðardóttur, formann Samfylkingarinnar, né Össur Skarphéðinsson, oddvita flokksins í Reykjavík suður, við vinnslu fréttarinnar.