Á fundi Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands sem bar yfirskriftina Hver bakar þjóðarkökuna? líkti Bjarni Benediktsson skattkerfinu við ofninn í ævintýrinu um Hans og Grétu.

Gerði Óttar Proppé frá Bjartri framtíð lítið úr þeirri samlíkingu, en Bjarni hafði notað líkingarmálið til að lýsa því að ekki væri hægt að lofa öllu fögru í aðdraganda kosninga.

Toppur á lengstu hagvaxtaruppsveiflu í sögunni

Á fundinum ræddi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson meðan annars um stöðu hagkerfisins í dag og sagði hana vissulega vera mjög góða, í raun væri þjóðfélagið líklega nálægt toppinum á lengstu hagvaxtaruppsveiflu í sögu þjóðarinnar.

Sagði hann hafa lagt áherslu á að setja inn skuldareglu fyrir ríkið en nefndi að helsti veikleikinn í efnahagskerfinu væri sundraður vinnumarkaður þar sem lítið þyrfti til að verkalýðsforkólfar myndu mæta með hnefann á lofti.

Nefndi hann að samskipti vinnumarkaðar og ríkisstjórnar væru ekki nógu góð en vinnumarkaðurinn væri of oft að taka út úr hagkerfinu sem veldur sveiflum.

Stjórnmálamenn ætla að taka afganginn

Einnig ræddi hann um sjávarútvegin sem hefði verið með um 60 milljarða í rekstrarafgang eða EBIDTu á síðustu árum. Síðan nefndi hann að gjaldeyrisstyrkingin hefði tekið eflaust um 25% af því svo afgangurinn væri kominn niður í 45 milljarða og svo væru aðrir þættir sem tækju aðra 20 til 25 milljarða.

Þá væru eftir um 20 milljarðar sem stjórnmálamenn væru hér að lofa að taka af greininni og eyða í nýjan spítala, vegi og svo framvegis.

Ekki sjálfstæð stjórnmálastefna

Einnig gagnrýndi hann Viðreisn og aðra flokka og sagði það ekki geta verið sjálfstæða stjórnmálastefnu að biðja bara um kosningu um Evrópusambandsaðild, heldur þyrfti afstaðan að vera skýr.

Sagði hann það vera hrikaleg þróun ef stjórnmálamenn forðist að taka afstöðu í málum og fælu sig á bak við að biðja um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ísland þyrfti einhverja sem tala máli landsins.

Vilja skilyrta inngöngu í ESB

Svaraði Þorsteinn Víglundsson hjá Viðreisn þessu skoti á stefnu flokksins um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður, að flokkurinn vildi ganga inn, en með skilyrðum.

Þá skaut Lilja Alfreðsdóttir hjá Framsókn því inn að aðstæður í ESB væru gjörbreyttar með útgöngu Bretlands. Sagði hún að stærsta viðskiptaland okkar væri að ganga þarna út og það þjóni ekki Íslandi og hagsmunum þess að ganga þarna inn.

Sagðist hún ekki vilja neitt hálfkák í þessu, spyrja þyrfti annað hvort já eða nei spurningar, hvort fólk vildi ganga inn í ESB eða ekki. Sagði hún að ekki mætti fara aftur í svona umboðslausa vegferð eins og gerðist hjá síðustu ríkisstjórn.