„Þetta eru fjármunir til fjárfestinga,“ segir Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, um 300 milljónir króna sem félag hans Sjávarsýn hefur flutt inn í landið að utan í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Þetta er heildarheimild félagsins samkvæmt því sem fram kemur í útgáfulýsingu . Bjarni vildi ekki tjá sig um það að öðru leyti, hvað Sjávarsýn er að fjárfesta í.

Þegar fjárfestingarleiðin er farin verður að gefa út skuldabréf. Útgáfulýsing fylgir henni. Í lýsingu Sjávarsýnar kemur fram að skuldabréfið er gefið út til 10 ára. Það ber 6% nafnvexti og á gjalddaga í júní árið 2024. Vaxtagjalddagi er einu sinni á ári 1. júní ár hvert. Fyrsta afborgun af fimm fer fram 1. júní árið 2020.

Samkvæmt ársreikningi Sjávarsýnar átti félagið undir lok árs 2012 eignir upp á 3,2 milljarða króna. Félagið hagnaðist um 374,8 milljónir króna það árið 2012 borið saman við 10,8 milljónir árið 2011. Mesti hagnaðurinn lá í gegnismuni. Hann nam 205,6 milljónum króna það árið en var 47,2 milljónir árið 2011. Af rúmlega 3,2 milljarða króna eignum voru skuldabréf og aðrar langtímakröfur upp á um 2,7 milljarða króna og virði eignahluta í félögum upp á 365 milljónum króna. Óráðstafað eigið fé Sjávarsýnar nam undir lok árs 2012 rúmum 2,2 milljörðum króna. Á móti eignum námu skuldir Sjávarsýnar við lok árs 2012 rétt rúmlega einum milljarði króna. Þar af voru skuldir í íslenskum krónum upp á rúma 191 milljón króna.