Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, krefst frávísunar í máli embættis sérstaks saksóknara gegn sér. Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Bjarni var ekki viðstaddur málflutninginn.

Bjarna er gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2007 til 2009 og vantalið fjármagnstekjur upp á rúmar 200 milljónir króna af a.m.k. 29 gjaldmiðlaskiptasamningum, vaxtatekjum og arði af erlendum hlutabréfum. Samkvæmt ákæru á hendur Bjarna er honum gefið að sök að hafa komið sér undan því að greiða rétt rúmar 20 milljónir króna.

Bjarni sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna málsins í kjölfar umfjöllun vb.is af málinu í byrjun árs að enginn ágreiningur sé um að gerð hafi verið mistök í skattframtalsgerðinni og hann þegar greitt það sem var vanframtalið með tilheyrandi álagi skattyfirvalda.

„Það kom mér verulega á óvart að málið færi í ákærumeðferð hjá sérstökum saksóknara, bæði vegna þess að ég leiðrétti mistökin sem voru gerð og gerði upp skattskuldina með viðeigandi álagi,“ sagði Bjarni.

Ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða liggur fyrir um frávísunarkröfu Bjarna en dómari sagði það verða fljótlega.