Bjarni Benediktsson var í dag endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi. Bjarni hlaut 753 atkvæði, eða 96% gildra atkvæða. Alls greiddu 799 atkvæði, en Bjarni var einn í framboði. Auðir seðlar voru 15.

Þá var Ólöf Nordal innanríkisráðherra kjörin varaformaður flokksins með 771 atkvæði af 816, en auðir seðlar voru 19. Ólöf tekur við varaformannsembættinu af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem ákvað að gefa ekki áframhaldandi kost á sér.

Þá var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kjörin ritari flokksins með 668 atkvæði af 783. Guðlaugur Þór Þórðarson hlaut 49 atkvæði þrátt fyrir að hafa dregið framboð sitt til baka, en 56 seðlar voru auðir. Mikla athygli vakti í gær þegar Áslaug Arna ákvað að bjóða sig fram og enn meiri þegar Guðlaugur ákvað að draga sitt framboð til baka. Sagði hann að rétt væri fyrir sig að víkja fyrir yngra fólki og hefur hann fengið mikið lof fyrir.