Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að mikið rótleysi einkenni suma í stjórnmálaflokki Pírata. Þetta segir hann í viðtali við DV í dag.

Þar er Bjarni beðinn um að upplýsa, ef kosið yrði nú og úrslit yrðu á þann veg sem kannanir mæla, hverjum hann myndi fara í ríkisstjórn með. „Þú ert í raun að spyrja mig hvort Píratar séu stjórntækur flokkur. Mér finnst enginn geta sett sig í það sæti að dæma aðra úr leik sem hafa sterkt lýðræðislegt umboð,“ svarar hann.

Bjarni segir hins vegar að því sé ekki að leyna að honum finnist mikið rótleysi hafa verið í kringum suma í flokki Pírata.

„Ég nefni sem dæmi að Birgitta sást fyrst á þingi þegar hún var, að ég hygg, starfsmaður fyrir Vinstri græna. Svo fór hún í framboð fyrir Borgarahreyfinguna og komst þannig á þing, en sá flokkur lifði ekki lengi og þá fór hún að starfa með Hreyfingunni. Svo bauð hún síð­ast fram fyrir Pírata,“ segir hann.

Bjarni segir að til þess að stýra landinu af stefnufestu þurfi einhverja kjölfestu.

„Stóra spurningin sem menn standa frammi fyrir með nýja flokka eins og Pírata er; fyrir hvað standa þeir? Er einhver kjölfesta í þeim? Mér finnst Píratar að stærstum hluta óskrifað blað,“ segir Bjarni.