Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að nýr stjórnarsáttmáli byggi á stöðugleika til framtíðar og að innviðauppbygging verði megininntak nýs stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Bjarni segir við tilefnið: „Það tókst, loksins, ekki í fyrstu tilraun. Þónokkuð langur vegur frá kosningum.“

Nú stendur yfir kynning á stjórnarsáttamálanum í Gerðarsafni í Kópavogi. Formenn flokkanna þriggja, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sitja svo fyrir svörum.

Hann viðurkennir að ríkisstjórnin byggist á naumum meirihluta - en kallar eftir því að flokkar vinni þvert á flokkslínur - á Alþingi. Bjarni leggur áherslu á það að ytri aðstæður séu góðar og að það séu góðar fréttir, en í því felist einnig áskoranir.