Í fjárlögum er heimild til að selja tæplega 30% hlut ríkisins í Landsbankanum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í viðtali á Eyjunni að óvissa um framtíð Bankasýslunnar og það hversu lengi frumvarp um að leggja hana niður hafi verið í meðförum þingsins hafi tafið fyrir sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum.

„Ég sé það fyrir mér að Landsbankinn verði um það bil í 40 prósenta eigu ríkisins," segir Bjarni í samtali við Eyjuna. „Að öðru leyti verði bankinn í dreifðu eignarhaldi. Bankinn verði skráður á markað og ríkið noti söluandvirði hlutabréfanna til þess að greiða niður skuldir sem meðal annars var stofnað til til þess að endurfjármagna bankann á sínum tíma."

Bjarni segir að með þessu sé hægt að stórlækka vaxtakostnað ríkisins. Hann segist vongóður um að ríkissjóður fái „gott og sanngjarnt verð fyrir bankann." Í því sambandi bendir hann á að þegar bankinn hafi verið einkavæddur árið 2003 hafi eiginfjárhlutfall hans verið innan við 7% og eigið fé í kringum 16 milljarðar króna. Núna sé eiginfjárhlutfallið yfir 20% og eigið fé bankans fyrir síðustu arðgreiðslu um 250 milljarðar. Virði bankans geti því verið um 250 milljarðar.

„Bara arðgreiðslan á þessu ári var næstum jafnhá og allt söluverð bankans árið 2003. Við erum með gríðarlega verðmætt fjármálafyrirtæki sem lítur allt öðruvísi út en það sem einkavætt var fyrir rúmum áratug."