Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vill ekki hafa ráðherra Bjartrar framtíðar áfram í starfsstjórn, verði hann beðinn á fundi með Guðna Th. Jóhannessyn forseta Íslands um að leiða hana fram að kosningum. Bjarni mun ásamt leiðtogum hinna stjórnmálaflokkanna eiga fund á Bessastöðum með forsetanum í dag, hann mætti strax í morgun klukkan 11, en aðrir koma til forsetans kolla af kolli eftir það.

  • 13:00 - Katrín Jakobsdóttir formaður V
  • 13:45 - Birgitta Jónsdóttir formaður þingflokks Pírata
  • 14:30 - Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins
  • 15:15 - Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar
  • 16:00 - Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar
  • 16:45 - Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar

Bjarni segir of marga fyrirvara vera á því að hægt sé að mynda ríkisstjórn í núverandi stöðu og því sé eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá, óhjákvæmilegt að kjósa upp á nýtt. Segist hann ekki hafa talað við Samfylkingu og Pírata í dag um möguleikana í stöðunni, en aðra flokka hafi hann talað við að því er RÚV greinir frá.

Bjarni segist hafa átt fund með ráðherrum Bjartrar framtíðar í gær þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að honum „þætti rétt  að ráðherrarnir bæðust lausnar frá störfum í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem þeir hefðu gefið. Það var ekki mikill ágreiningur um það milli okkar. Þannig að ég er ekki að gera ráð fyrir því að ráðherrarnir muni vilja sitja áfram í starfsstjórn,“ segir Bjarni sem ekki segist eiga neina draumasamstarfsmenn.

„Ég mun hins vegar berjast fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn sæki fram, að hann endurheimti allt það traust sem hann fékk í síðustu kosningum og bæti við sig. Ég mun tala fyrir því að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir stjórnfestu í landinu að Sjálfstæðisflokkurinn komi enn sterkari en úr síðustu kosningum, jafnvel þótt hann hafi þar fengið tvöfalt fleiri þingmenn en næststærsti flokkurinn.“