Mikil bjartsýni ríkir meðal fyrirtækja í afþreyingarþjónustu gagnvart árinu 2016 samkvæmt könnun sem Íslandsstofa gerði í mars. Samkvæmt könnuninni er áætlað að tekjur í geiranum muni aukast um 53% milli ára og að starfsmönnum muni fjölga á flestum starfssviðum.

Að meðaltali reikna fyrirtækin með um 53% aukningu á tekjum fyrir árið 2016 samanborið við árið í fyrra. Bandaríkin og Bretland eru með flestar bókanir fyrir árið 2016, en mestum markaðskostnaði var varið í þessi lönd í fyrra. Athygli vekur að um 6% fyrirtækjanna nefna Kína sem eitt af þeim svæðum sem mestum markaðskostnaði var varið í árið 2015 en það er sama hlutfall og nefndi Kanada.

Fyrirtækin búast við að fjölga starfsmönnum á flestum starfssviðum. Smærri fyrirtæki, þ.e. með veltu undir 600 milljónum króna, munu í meira mæli fjölga hjá sér fararstjórum, leiðsögumönnum og bílstjórum. Mesta aukningin verður á sölusviði hjá bæði stærri og smærri fyrirtækjum, en um 25% þeirra fyrirtækja sem svöruðu nefndu að þau myndu fjölga starfsmönnum á því sviði. Einnig munu 17% af stærri fyrirtækjunum fjölga starfsmönnum í framleiðsludeild og markaðsdeild.