Grásleppuvertíðin hófst í gærmorgun en sjómenn máttu leggja net sín klukkan átta. Nú við upphaf vertíðar voru 44 bátar komnir með gild leyfi, líkt og í fyrra.

Verð á óskorinni grásleppu er töluvert betra en verið hefur undanfarin ár, að því er fyrstu fréttir herma. Landssamband smábátaeigenda sagði frá því að grásleppuverkandinn Sverrir Björnsson ehf á Siglufirði gaf upp 260 krónur fyrir kílóið. Verðið á óskorinni grásleppu var 160 krónur árið 2016 en hafði hækkað í 223 krónur í fyrra, og því er verðþróun sjómönnum hagstæð.

Fiskifréttum hefur borist til eyrna að lokaverð gæti orðið töluvert hærra en 260 krónur.

2,2 milljarðar í fyrra

Aflaverðmæti vertíðarinnar í fyrra var um milljarður króna og útflutningsverðmætin 2,2 milljarðar. Sambærilegar tölur fyrir árið á undan voru 900 milljónir og 1,6 milljarður króna.

Veiðitímabil allra veiðisvæða nema á innanverðum Breiðafirði hefur verið lengt og samræmd, þ.e. frá og með 20. mars til og með 30. júní.  Tímabilið fer úr 85 dögum í 103. Á innanverðum Breiðafirði verður tímabilið óbreytt frá og með 20. maí til og með 12. ágúst. Upphafsfjöldi veiðidaga er 25 nú í ár, en var 20 í fyrra, endanlegur fjöldi veiðidaga er ákveðinn í byrjun apríl; voru 44 í fyrra en 46 árið 2017.

Á heimasíðu Þorgeirs Baldurssonar, ljósmyndara á Akureyri, má finna fleiri myndir frá upphafi vertíðarinnar.