Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, telur að deiluaðilar séu tiltölulega nálægt því að leysa kjaradeiluna, en verkfall sjómanna hefur staðið frá 14. desember. Í samtali við RÚV segir hann að sjómenn séu að búa sig undir að leysa deiluna á morgun eða næstu daga. Hann segir að bæði sé mikill vilji hjá útgerðarmönnum til að klára þetta mál sem og sjómönnum.

Konráð segist alls ekki vilja að Alþingi setji lög á deiluna eins og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata hefur spáð að verði gert. „Guð forði okkur frá því," segir Konráð í samtali við RÚV.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, er sama sinnis og Konráð. Í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn sagðist hún ekki fylgjandi því að lög yrðu sett á verkfallið.

„Við höfum ekki verið talsmenn þess að Alþingi grípi inn í deilur aðila vinnumarkaði. Við trúum því enn að við getum leyst þessa deilu án aðkomu Alþingis."