Icelandair mun á næstunni bjóða flug til Evrópu rétt fyrir hádegi og til Norður-Ameríku að kvöldi með svokölluðum nýjum tengibanka.

Með því að færa hluta af komu- og brottförum véla sinna á nýjan tíma er stefnt að aukinni nýtingu flota og aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Telja stjórnendur að með nýju tengibönkunum skapist ný vaxtar- og markaðstækifæri. Jafnframt eru nýju tímarnir sagðir auka tengimöguleika fjarlægari borga í Evrópu.

Brottfarartímar ekki áður í boði

Icelandair hefur hafið sölu á flugi til fjölmargra áfangastaða á brottfarartímum sem ekki hafa áður verið í boði hjá félaginu. Um er að ræða breytingu á leiðakerfi félagsins sem felst í því að auk núverandi tengitíma á Keflavíkurflugvelli, snemma morguns og síðdegis, verður frá og með maí 2019 boðið upp á flug til Evrópuborga um kl. 10:30 að morgni og til Norður-Ameríkuborga um kl. 20.00 að kvöldi.

Tilgangur breytinganna er að skapa félaginu ný tækifæri til vaxtar, bæta þjónustu við farþega og auka sveigjanleika. Ekki er svigrúm til að bæta við flugi eða farþegum á Keflavíkurflugvelli á háannatímanum að morgni og síðdegis, en á nýju brottfarartímunum er nægt rými í flugstöðinni, við brottfararhlið og á flughlöðum. Að auki verða til nýir tengimöguleikar fyrir farþega á leið yfir Atlantshafið milli þessara tveggja tengibanka.

Þurfa ekki að vakna eldsnemma lengur

„Þessi breyting, sem verið hefur í undirbúningi um hríð, er nýr áfangi í framtíðarvexti félagsins“, segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

„Við erum að þróa tengimöguleika okkar núverandi leiðakerfis en auk þess að koma inn á markaðinn með nýja þjónustu. Fyrir Íslendinga getur t.d. verið þægilegt að þurfa ekki að vakna snemma á morgnana fyrir Evrópuflug, og einnig að fljúga vestur um haf að kvöldi til. Við erum jafnframt að horfa til þess að laga það ójafnvægi sem var í leiðakerfinu á árinu 2018.“

Breytingin tengist einnig endurnýjun flugflota Icelandair, en félagið tekur á móti sex nýjum Boeing MAX þotum snemma á næsta ári til viðbótar við þær þrjár sem komu á þessu ári. „Nýr floti styður við þessa breytingu á leiðakerfinu. Nýtingin á flugvélunum mun aukast en um leið léttir þetta álagið á Keflavíkurflugvelli og þjónusta við farþega verður betri,“ segir Bogi Nils.

„Endanleg flugáætlun fyrir árið 2019 liggur ekki fyrir, enn er verið að greina hvort nýir áfangastaðir bætast við og hvort hætt verði flugi til einhverra af núverandi áfangastöðum. Jafnframt erum við að skoða tíðni til núverandi áfangastaða og hafa því ekki verið teknar ákvarðanir varðandi vöxt á næsta ári.“

Minni tengibanki en aðaltíminn

Endanleg flugáætlun félagsins verður birt þegar hún liggur fyrir. Nýi tengibankinn verður nokkru minni en aðaltengibankinn. Boðið verður upp á flug til Evrópuborga um klukkan 10:30 og flug frá sömu borgum munu lenda á Keflavíkurflugvelli um kl 18:30.

Þær borgir í Evrópu sem búið er að ákveða að fari inn í þennan tengibanka eru Frankfurt, München, Amsterdam, Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Ósló, París, Brussel, Berlín, Hamborg og Zürich. Einnig verður áfram flogið til þessara borga á sama tíma og undanfarin ár.

Flogið verður til Norður-Ameríkustaða um kl. 20:00 og flug frá þeim borgum muni lenda á Íslandi um kl. 09:30 að morgni. Borgirnar eru Boston, New York, Washington, Chicago, Minneapolis og Toronto.