Það er að mörgu að huga hjá sprotafyrirtækjum. Það er ekki nóg að hafa frumlega hugmynd, heldur þarf einnig að gæta þess að fara eftir lögum og reglum í rekstri, gera viðskiptaáætlanir og fleira.

Starfsmenn endurskoðunarfyrirtækja hafa margvíslega þekkingu sem gagnast sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Á undanförnum misserum hafa endurskoðunarfyrirtækin í auknum mæli farið að bjóða sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum upp á sérhæfða þjónustu og stuðning.

Samningar við um 70 fyrirtæki

KPMG býður margvíslegan stuðning við sprotafyrirtæki. Hlynur Sigurðsson, meðeigandi hjá KPMG, segir að í gegnum tíðina hafi fyrirtækið stutt við nýsköpunarhraðla á borð við Gulleggið og Startup Reykjavík með ráðgjöf, kennslu, setu í dómnefndum og fleiru.

„En svo höfum við líka síðustu misserin verið að gera samstarfssamninga við nýsköpunarfyrirtæki um það sem við kunnum og gerum best, að sjá um bókhald, gera ársreikninga, endurskoðun, skattamál, ráðgjöf og þess háttar. Við bjóðum þessum fyrirtækjum þessa þjónustu á mjög hagstæðum kjörum,“ segir Hlynur.

Hann segir að verkefnið hafi formlega hafist árið 2014 og að nú séu í gildi samstarfssamningar við nærri 70 fyrirtæki. Verkefnin eru allt frá því að vera óstofnuðfyrirtæki utan um einhverjar hugmyndir upp í þroskaðri nýsköpunarfyrirtæki. „En þetta verkefni er helst miðað að þeim sem eru að fara af stað og eru kannski ekki komnir á það stig að vera komnir með tekjur, eru að leita sér að fjármagni og þess háttar,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Sprotum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .