Framkvæmdafélagið Arnarhvoll reisir nýtt hugmyndahús á svæði Vísindagarða í Vatnsmýrinni, sem mun meðal annars hýsa höfuðstöðvar CCP, en húsið verður fullbúið 17.500 fermetrar að stærð.

Framkvæmdafélagið er meðal annara í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, Andra Sveissonar og Birgis Már Ragnarssonar, en þeir síðarnefndu hafa verið samstarfsmenn og viðskiptafélagar Björgólfs árum saman að því er Fréttablaðið greinir frá. Einnig stendur sjóðurinn Gamma: Construo, Árni Geir Magnússon og Karls Þráinssonar forstjóri Arnarhvols að félaginu. Björgólfur Thor er einnig stór hluthafi í CCP.

Samningurinn sem Framkvæmdafélagið Arnarhvol ehf. hefur undirritað um byggingu hugmyndahússins þar sem verða nýjar höfuðstöðvar CCP á Íslandi til húsa auk annarra fyrirtækja leggur áherslu á samstarf háskóla og atvinnulífs. Húsið verður fullbúið 17.500 fermetrar að stærð og ber nafnið Gróska.

Framkvæmdafélagið Arnarhvoll, sem er nýtt alhliða verktakafyrirtæki, hefur yfirumsjón með verklegum framkvæmdum við nýbygginguna. Áætlað er að húsið verði tekið í notkun árið 2019. Húsið skiptist í margar hagstæðar einingar þar sem nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtækjum gefst kostur á að leigja aðstöðu segir í fréttatilkynningu..

Í samstarfi við Háskóla Íslands verður Gróska suðupottur nýsköpunar og hugmynda. Þá er einnig gert ráð fyrir verslunum, kaffihúsi og annarri þjónustu á jarðhæð auk ráðstefnusalar.

Fyrsti samningur Arnarhvols

„Samningurinn um Grósku er fyrsti samningurinn sem við undirritum og bygging Grósku fyrsta stóra verkefnið sem við tökum að okkur. Það er ánægjulegt að hugsa til þess að það skuli vera uppbygging hugmyndahúss á Vísindagörðum Háskólans og jafnframt höfuðstöðvar CCP,“ segir Karl Þráinsson, forstjóri Arnarhvols.

„Það minnir okkur á mikilvægi þess að huga vel að vísindum og hugmyndaþekkingu hér á landi. Við munum í framhaldinu huga að öðrum stórum verkefnum víða um land og ætlum okkur að vera leiðandi á verktakamarkaði í framtíðinni.“