Björgólfur Jóhannsson var í dag endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins á aðalfundi samtakanna með 95% greiddra atkvæða. Björgólfur hélt opnunarræðu á ársfundi SA, sem fer nú fram í Hörpu.

Björgólfur hóf ræðu sína á að nefna að nú væru umrótatímar í íslensku samfélagi. Hann sagði að vart hafi önnur umræðuefni borið hærra að undanförnu en skattaskjól og aflandseyjar. Umræðan hafi haft áhrif á stöðu stjórnmála og stjórnmálamanna á Íslandi og víðar.

Björgólfur sagði tilganginn með félögum í skattaskjólum ýmist vera að dylja eignarhaldið eða koma í veg fyrir að greiða skatta og skyldur samkvæmt lögum heimalandsins, eða bæði. Það hafi komið fram að íslensku bankarnir hafi haft frumkvæðið að stofnun aflandsfélaga fyrir viðskiptavini sína fyrir hrun. Hann sagði að vonandi hafi margir flutt eignir sínar annað þar sem eðlilegar viðskiptareglur gilda.

Fjölmörg fyrirtæki hafi nýtt styrkleika sína og verið með umsvif erlendis. Á sama hátt fjárfesti erlendir aðilar hér á landi. Frjálst flæði fjármagns sé lykilþáttur í EES-samningnum.

„Hins vegar verður að gera skýran greinarmun á eðlilegu flæði fjármagns þar sem allt er uppi á borði gagnvart yfirvöldum og skattaskjólum,“ sagði Björgólfur. Óásættanlegt sé að menn láti sér ekki nægja eðlilegan arð af fjárfestingu heldur reyni að koma sér undan því að greiða skatta og skyldur eins og þeim ber.

Björgólfur sagði að yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja og stjórnenda þeirra stundi rekstur sinn af kostgæfni, hófsemd og heiðarleika. „Við viljum að á Íslandi sé rekið arðbært og ábyrgt atvinnulíf sem bætir lífskjör allra,“ sagði hann og bætti við að SA hafi tekið einarða afstöðu gegn svarti atvinnustarfsemi. „Það er óásættanlegt að fyrirtæki og stjórnendur gangi á svig við lög og reglur og greiði ekki til samfélagsins til jafns við aðra. Það má aldrei líðast.“

Björgólfur sagði að mikil ábyrgð hvíli á stjórnendum landsins, ekki síst á tímum pólitískrar óvissu. Það sé þá sem reynir á að stjórnmálamenn sýni ábyrgð og láti ekki eigin hag eða flokkshagsmuni ganga framar þjóðarhag.