Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2012. Björgólfur Jóhansson veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Grillinu á Hótel Sögu nú í hádeginu.

Í rökstuðningi ritstjórnar var horft til þess að Icelandair Group er í dag stærsta og öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Félagið fór í gegnum umfangsmikla endurskipulagningu sem lauk árið 2010 en fram að því var rekstur Icelandair Group háður mikilli óvissu.

Með markvissri samvinnu lánadrottna og stjórnenda Icelandair Group var unnið að því að endurskipuleggja efnahag og rekstur félagsins. Síðan þá hefur vöxtur félagsins verið stöðugur, með auknum farþegafjölda, fjölgun í flugflota samstæðunnar, uppbyggingu hótela, góðri nýtingu flotans í leiguverkefnum, nýtingu tækifæra í Grænlandsflugi og góðrar afkomu svo sitthvað sé nefnt.

„Árangur og uppbygging félagsins eftir eldgosið í Eyjafjallajökli vorið 2010 er gott dæmi um það hvernig stjórnendur félagsins hafa mætt áskorunum og erfiðleikum og snúið þeim sér í hag,“ sagði Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, við afhendingu verðlaunanna.

„Miðað við framgang Icelandair Group hafa áætlanir í öllum veigamestu atriðunum gengið upp. Rekstrarárangur hefur gengið eftir, félagið er komið í dreifðara eignarhald, þróun og umfang viðskipta í Kauphöll sýna að fjárfestar eru ánægðir með þróunina og framtíðarsýnin er til staðar. Hún er að auka framlegð í ferðaþjónustu á Íslandi með aukinni fjárfestingu í innviðum hér á landi og fjárfesta í nýjum flugvélum sem ætlað er bæði að styrkja og efla leiðarkerfi Icelandair. Þessar ákvarðanir hafa gríðarlega jákvæð áhrif á önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu hér á landi.“

Í áramótatímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun, má finna ítarlegt viðtal við Björgólf.