*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 15. nóvember 2010 17:17

Björgólfur Jóhannsson: Icelandair Group í stakk búið til að mæta samkeppni

Hækka EBITDA spá fyrir árið – krefjandi ársfjórðungar framundan

Ritstjórn

Rekstur Icelandair Group samstæðunnar í október og bókunarstaða fyrir síðustu tvo mánuði ársins er með þeim hætti að félagið hefur hækkað EBITDA spá ársins úr 9,5 milljörðum króna í 10,5 milljarða.

Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í uppgjörstilkynningu félagsins en félagið birti í dag uppgjör þriðja ársfjórðungs þar sem fram kemur að hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3,2 milljörðum króna en á sama tíma í fyrra nam heildartap samstæðunnar 1 milljarði króna.

Þetta er þá í þriðja sinn á árinu sem Icelandair Group hækkar EBITDA spá sína en við birtingu uppgjörs vegna fyrstu sex mánaða ársins hækkaði félagið EBITDA spá ársins úr 7,6 milljörðum króna í 8,5 milljarða króna. Rekstur þriðja ársfjórðungs gekk vel og í ljósi þess hækkaði félagið EBITDA spá ársins 2010 í 9,5 milljarða króna og sem fyrr segir spáir félagið nú 10,5 milljarða króna hagnaði.

Björgólfur segir uppgjör fyrstu níu mánuði ársins vera betran en gert hafði verið ráð fyrir.  Bætt afkoma skýrist einkum af auknu framboði og aukinni sölu á Norður-Atlantshafsmarkaði en jafnframt af góðri sætanýtingu og tekjustýringu í leiðakerfi Icelandair.

„Þrátt fyrir góða afkomu á fyrstu níu mánuðum ársins liggur fyrir að framundan eru tveir krefjandi ársfjórðungar,“ segir Björgólfur í tilkynningunni.

„Áframhaldandi óvissa í íslensku efnahagslífi er fyrirtækinu kostnaðarsöm og á næsta ári eru líkur á að samkeppni í millilandaflugi til og frá Íslandi harðni umtalsvert . Jafnframt má búast við auknu framboði yfir Atlantshafið en við teljum fyrirtækið vel í stakk búið til að mæta þeirri samkeppni með aukinni þjónustu, hagkvæmri verðlagningu og stöðugu sætaframboði til og frá landinu.“