*

þriðjudagur, 17. júlí 2018
Innlent 9. ágúst 2017 10:07

Björgólfur: Mikil gerjun í ferðaþjónustu

Forstjóri Icelandair Group segir að ljóst sé að styrking krónunnar hafi haft áhrif á ferðaþjónustuna.

Höskuldur & Pétur
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Haraldur Guðjónsson

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að mikil gerjun hafi átt sér stað í íslenskri ferðaþjónustu að undanförnu. „Það hefur verið mikil fjölgun ferðamanna. Svo er aukin samkeppni bæði innanlands og ekki síður erlendis frá, þá leita menn  þeirra tækifæra sem geta leitt af sér betri þjónustu og öflugri fyrirtæki,“ segir  hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Fyrr í morgun var tilkynnt um sameiningu Iceland Travel ehf., sem er félag í eigu Icelandair Group, og Allrahanda GL ehf. Allrahanda starfar hér á landi undir merkjum Gray Line. Í kjölfar samrunans mun Icelandair eiga 70% í hinu sameinaða fyrirtæki meðan eigendur Allrahanda GL ehf. munu eiga 30%. Forstjóri Icelandair Group bendir þó á að kaupin séu háð samþykki samkeppnisyfirvalda. 

Björgólfur tekur fram að þarna sjái félögin færi á því að búa til öfluga einingu sem að sér tækifæri til þess að þjóna viðskiptavinum sínum enn betur og enn fremur að gera það á hagkvæmari hátt.

Spurður að því hvort að mikil gengishækkun og fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna hafi haft áhrif á ákvörðunina um að sameinast segir hann: „Það er kannski ekki bein ástæða fyrir þessu en það er ljóst að styrking krónunnar hefur haft áhrif á ferðaþjónustu og menn leita alltaf leiða. Það er þó ekki beint það sem keyrir þessar þreifingar áfram. Það er einfaldlega það að við sjáum tækifæri til að gera betur.“