Búlgarski bankinn Economic and Investment Bank (EIBank), sem er fjárfestingafélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar á 48,6% hlut í, er í viðræðum við erlenda fjárfesta um kaup á stórum hlut í bankanum. Samkvæmt heimildum Reuters fréttaþjónustunnar hafa spænskir og belgískir fjárfestar hafið viðræður um kaup á hlut í bankanum.

Fjárfestarnir sem hér um ræðir eru annars vegar spænski bankinn La Caixa og hins vegar belgíska banka- og tryggingafélagið KBC. EIBank er níundi stærsti banki Búlgaríu þegar horft er til eigna. Samkvæmt heimildum Reuters hafa bæði La Caixa og KBC lagt fram tilboð og munu viðræður vera í gangi við þá.

Novator Finance Bulgaria, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, jók hlut sinn í Economic and Investment Bank (EIBank) um 14,63% í 48,63% í febrúar síðastliðnum. Auk þess eiga tveir búlgarskir fjárfestar 24,3% hvor í bankanum. Þau 2,3% sem eftir standa eru í eigu ýmissa smærri aðila en EIBank er skráður í búlgörsku kauphöllina. Markaðsvirði bankans er um 660 milljónir evra eða tæplega 60 milljarðar króna.