Björgólfur Thor Björgólfsson sem nýlega seldi fjarskiptafyrirtækið Nova fyrir yfir 15 milljarða íslenskra króna rekur einnig fjarskiptafyrirtækin Play í Póllandi og WOM í Síle í Suður Ameríku.

Segir hann menninguna í Suður Ameríku minna sig um margt á Austur Evrópu, og margt sé líkt með svæðunum.

Búinn með Austur-Evrópu

„Þetta er spennandi svæði sem er að koma út úr erfiðu tímabili. Gallinn er að það er langt að fara til að heimsækja fyrirtækin,“ segir Björgólfur Thor í viðtali í Fréttablaðinu .

Ég vil vera á svæðum þar sem hagkerfi er að koma úr niðursveiflu og er að byrja að sýna einkenni þess að þau séu að rétta úr kútnum. Ég hef verið í 25 ár í Austur-Evrópu og mér finnst ég vera búinn með það svæði. Bandaríkin koma ekki til greina. Þar eru allt of margir sem kunna betur það sem ég kann,“ segir Björgólfur Thor.

„Þá er eftir Asía, Afríka og Suður-Ameríka. Ég er ekki spenntur fyrir Asíu. Þar er kúltúrinn erfiður og hentar mér ekki og Afríka er erfið, allt of mörg lönd og erfitt að ná stærðarhagkvæmni. Þá er Suður-Ameríka eftir og ég er þegar byrjaður þar með símafélagið Wom í Chile.“

Vildi selja til erlendra fjárfesta

Í viðtalinu kennir ýmissa grasa, segist hann meðal annars ánægður með að erlendir fjárfestar hafi keypt Nova, en í gær bárust fréttir af því að hinir erlendu aðilar muni selja allt að þriðjungshlut í fyrirtækinu til íslenskra fjárfesta.

Talar hann einnig um að hann hafi mest gaman að því að koma á fót nýjum fyrirtækjum og hann sjái að það taki hann í kringum áratug að koma fyrirtæki á fót en síðan vilji hann selja og snúa sér að öðru, líkt og hann er núna að gera með Nova sem hann byggði upp frá grunni.

Vill ekki koma til Íslands til að vinna

Jafnframt vill hann ekki fjárfesta á Íslandi. „Ég er mjög ánægður með að erlendir fjárfestar skuli hafa keypt Nova og ég vona að við fáum fleiri erlenda fjárfesta inn í verkefni hérlendis og stækki kerfið. Við erum lítil og einsleit og stutt á milli allra og mikil innri vensl. Ég þrífst ekki vel í því,“ segir Björgólfur Thor.

„Ég lít svo á að allur heimurinn sé undir í mínum fjárfestingum. Á Íslandi vil ég fjárfesta í ferðalögum, góðum mat og því að njóta landsins. Ég elska Ísland og Íslendinga en ég vil koma hingað úr vinnunni en ekki í hana.“