Eftir að hafa lækkað um 54 sæti, niður í 1.215 sæti í fyrra þrátt fyrir að hafa aukið við auð sinn um 300 milljónir dala, er Björgólfur Thor Björgólfsson nú kominn upp um 99 sæti eða í 1.116 sæti á lista Forbes yfir milljarðamæringa.

Það er þrátt fyrir að eignir hans séu metnar jafnmiklar og fyrir ári , eða 2,1 milljarð dala, eða sem samsvarar nú 255 milljörðum íslenskra króna.

Björgólfur Thor er eini Íslendingurinn á listanum, en efstur á honum er sem fyrr stofnandi Amazon, Jeff Bezos og fjölskylda hans, en þó gæti þar horft til nokkurra breytinga vegna yfirvofandi skilnaðar Bezos og konu hans.

Tuttugu efstu sætin á listanum eru sem hér segir:

  1. Jeff Bezos og fjölskylda
  2. Bill Gates
  3. Warren Buffet
  4. Bernard Arnault og fjölskylda
  5. Carlos Slim Helu og fjölskylda
  6. Amancio Ortego
  7. Larry Ellison
  8. Mark Zuckerberg
  9. Michael Bloomberg
  10. Larry Page
  11. Charles Koch
  12. David Koch
  13. Mukesh Ambani
  14. Sergey Brin
  15. Francoise Bettencourt Meyers og fjölskylda
  16. Jim Walton
  17. Alice Walton
  18. Rob Walton
  19. Steve Ballmer
  20. Ma Huateng

Þetta er einungis annað árið á einum áratug sem bæði fjöldi milljarðamæringa og heildarauður þeirra minnkaði, en samkvæmt talningu tímaritsins eru 2.153 aðilar sem eiga milljarð Bandaríkjadala eða meira, sem er 55 færri en fyrir ári síðan. En í heildina féllu 247 af þeim sem voru á honum í fyrra af listanum, sem er mesti fjöldi síðan 2009 á hátindi fjármálahrunsins.

Metfjöldi þeirra sem er á listanum, eða 994, sem samsvarar 46% af heildinni, eru fátækari en þeir voru fyrir ári síðan. Heildarauður þessa hóps nemur 8,7 billjónum dala, sem er samdráttur um 400 milljarða dala frá árinu 2018.

Mesti samdrátturinn var á Asíu og Kyrrahafssvæðinu, en þar fækkaði milljarðamæringunum um 60, þar af flestir í Kína, sem er þá með 49 færri milljarðamæringa en fyrir ári síðan. Einnig fækkaði þeim í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku, en bæði Suður og Norður Ameríka sáu fjölgun, og eru einu svæðin þar sem það gerðist. Brasilía leiddi fjölgunina í Suður Ameríku, en Bandaríkin í norðurálfunni.

Er nú metfjöldi milljarðamæringa í Bandaríkjunum, eða 607, þar af 14 af 20 ríkustu. 195 nýir eru á listanum, en sá ríkasti þeirra er Colin Huang, stofnandi kínverska netsölufyrirtækisins Pinduoduo sem sett var á markað í Bandaríkjunum í júlí.

Aðrir nýir sem athyglivert er að nefna eru þau Daniel Ek og Martin Lorentzon frá Spotify, James Monsees og Adam Bowen frá Juul Labs, Daniel Lubetzky frá Kind Bar og svo yngsti milljarðamæringurinn Kylie Jenner, en hún er 21 árs gömul.