Samfélagslegur ávinningur af lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands nemur allt að 470 milljónum evra á ári hverju, eða 72 milljörðum íslenskra króna. Þetta er niðurstaða kostnaðar- og ábatagreiningar sem fram kemur í skýrslu ENTSO-E. ENTSO-E eru samtök flutningsfyrirtækja rafmagns í Evrópu og Evrópusambandið hefur falið samtökunum ákveðin lögbundin hlutverk við undirbúning, útfærslu og framkvæmd tenginga á raforkukerfum Evrópuþjóða.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að ræða þurfi frekar við Breta um áhuga þeirra á verkefninu. Niðurstöður skýrslunnar séu mjög ánægjulegar og hvetjandi. „Þetta er áhugavert fyrir Landsvirkjun, og þetta er jafnframt áhugavert fyrir Ísland eftir kreppu undanfarinna ára og niðurskurð sem við höfum farið í gegnum á flestum sviðum. Það vantar aukið fjármagn til að reka þjóðfélagið og hér getur verið á ferðinni tækifæri til að auka verðmætasköpun um tugi milljarða á ári. Þetta eru hins vegar bara vísbendingar enn sem komið er og við þurfum tvö til þrjú ár til að safna frekari gögnum og gera betri greiningar á áhættu og afleiðingum. Ég hlakka sjálfur til að komast að því,“ segir Björgvin.

Björgvin segist ekki búast við að sæstrengur þyrfti forgang á rafmagn umfram önnur iðnfyrirtæki á Íslandi. Sæstrengur sé í raun einn viðskiptavinur í viðbót við kaupendur hérlendis og líklegast að hann muni hafa sömu afhendingarskilmála. Í einhverjum tilfellum mætti ímynda sér að íslensk stjórnvöld settu skilyrði um forgang á afhendingu rafmagns innanlands undir alvarlegri kringumstæðum til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns til almennings.