Forsvarsmenn Next Code Health á Íslandi hafa breytt nafni félagsins í Nextcode Health Iceland og aukið við hlutafé félagsins samkvæmt tilkynningu sem var send inn til hlutafélagaskrár á dögunum. Rekstrarformi félagsins hefur einnig verið breytt úr einkahlutafélagi yfir í hlutafélag. Það var gert svo að félagið gæti tekið þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans.

Björn Zoëga, forstjóri Nextcode og fyrrverandi forstjóri Landsspítalans, hefur samkvæmt tilkynningunni skráð sig fyrir 1,25% hlut í félaginu. Af þeim fjórum milljónum nafnvirðis hlutafjár félagsins þá er hann skráður fyrir 50 þúsund krónum. Eignarhald á íslenska félaginu er að öðru leyti í gegnum félagið Nextcode Health Luxembourg S.a.r.l.

Áður hefur Viðskiptablaðið fjallað um að Hannes Smárason starfaði sem forstjóri félagsins um skeið áður en hann steig niður eftir að hafa verið birt ákæra sérstaks saksóknara fyrir fjárdrátt í tengslum við viðskipti með flugfélagið Sterling.