Björn Ragnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kynnisferða. Björn var fyrir rekstrarstjóri hópbifreiða Kynnisferða, en hefur tímabundið gegnt starfi framkvæmdastjóra frá því í haust.

Björn hefur reynslu af rekstri og var meðal annars framkvæmdastjóri bílaleigunnar ALP ehf. (AVIS og Budget) og fjármálastjóri Bláa lónsins. Til Kynnisferða kom hann frá Bílabúð Benna þar sem hann hafði frá árinu 2012 gegnt starfi framkvæmdastjóri bílasviðs og þar áður starfi fjármálastjóra hjá sama fyrirtæki.

Björn er með cand.oecon. próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann er giftur Kolbrúnu Sigurþórsdóttur lyfjatækni og eiga þau þrjú börn á aldrinum 7 til 12 ára auk þess sem Björn á tvítugan son.

Jón Benediktsson , stjórnarformaður Kynnisferða segir undangengin ár hafa verið tíma aukinna umsvifa og breytinga í ferðaþjónustu.

„Á slíkum tímum skipta reynsla, styrk stjórn og skýr framtíðarsýn máli og það er því stjórn Kynnisferða fagnaðarefni að tilkynna um ráðningu Björns Ragnarssonar í starf framkvæmdastjóra,“ segir Jón. „Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs við hann.“

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða segist taka að sér áframhaldandi störf við framkvæmdastjórn fyrirtækisins með mikilli ánægju.„Rekstur ferðaþjónustufyrirtækis í síkviku og breytilegu umhverfi er um margt krefjandi starf, en um leið skemmtilegt og lifandi,“ segir Björn.

„Ég hlakka til að leiða þennan stóra hóp frábærra starfsmanna og til áframhaldandi vinnu við uppbyggingu og vöxt fyrirtækisins.“ Hjá Kynnisferðum – Reykjavik Excursions starfa um 500 starfsmenn, en fyrirtækið hefur verið starfandi frá árinu 1968.