Isavia var nýlega sýknað af kröfu konu sem vann hjá fyrirtækinu vegna vangoldinna launa auk miskabóta vegna kynferðislegrar áreitni sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanns síns. Málið komst í hámæli í byrjun árs í fyrra og héraðsdómur dæmdi félagið til að greiða konunni 1,8 milljónir króna í miskabætur.

Hæstiréttur sneri þeim dómi við um miðjan febrúar þar sem ekki var talið að fyrirtækið hefði brotið á konunni með viðbrögðum sínum.

„Auðvitað var þetta mjög óviðeigandi hegðun. Við erum þó fegin að Hæstiréttur hefur staðfest að viðbrögð okkar við þessu voru rétt,“ segir Björn Óli í viðtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um þetta mál.

„Það sem við helst lærðum af þessu er að það er mjög erfitt fyrir fyrirtæki að virka sem dómstóll. Við höfum skýrar starfsreglur í málum sem þessu en þurftum að setja mikla vinnu í það að finna út hvernig best væri að leysa þetta mál, sem var mjög sérstakt, og erfitt var að nálgast afdráttarlausar leiðbeiningar. Það skiptir öllu máli að fyrirtæki fái skýrar reglur um svona mál þannig að tryggt sé að meintir gerendur eða þolendur fái sanngjarna málsmeðferð og viðeigandi stuðning.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Björn Óli yfir rekstur Isavia, framtíð Keflavíkurflugvallar og nýja flugstöðvarbyggingu auk þess sem hann svarar því hvort Isavia væri betur komið í höndum einkaaðila. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.