Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 22,6% fylgi og mælist því stærsti flokkur landsins. Rúmlega 18% sögðust ætla að kjósa Pírata sem er tveimur prósentustigum minna en í síðustu mælingu.

Helsta breytingin frá síðustu mælingu er þó sú að Björt framtíð bætir við sig fylgi frá síðustu mælingu, en flokkurinn mælist með tæp 8% í Þjóðarpúlsinum.

Vinstrihreyfingin grænt framboð mælist með 14,5% og mælist því þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn. Viðreisn mælist með 12,4% fylgi og Framsóknarflokkurinn með 9,8%. Samfylkingin mælist hins vegar með 7,1% fylgi í Þjóðarpúlsinum. Íslenska þjóðfylkingin mælist hins vegar með 3,2% fylgi.

Tæplega 7% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og rúmlega 9% taka ekki
afstöðu eða neita að gefa hana upp.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst lítillega milli mælinga en rúmlega 37% segjast styðja ríkisstjórnina.