*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 12. mars 2018 08:34

Björt framtíð hættir við framboð

Björt Ólafsdóttir formaður flokksins gefur ekki kost á sér í Reykjavík, en jafnframt verður ekkert úr samstarfi við Viðreisn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Björt Ólafsdóttir, formaður stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar, staðfestir að ekki verði boðið fram undir merkjum flokksins í Reykjavík í vor í samtali við Fréttablaðið. Hins vegar verður heldur ekki um samstarf við Viðreisn eins og Viðskiptablaðið hafði greint frá að þreifingar væru um.

Með fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 hefur þröskuldurinn inn í borgarstjórn verið lækkaður úr um 6,7% niður í 4,3%, þó það fari einnig nokkuð eftir atkvæðadreifingu. 

Flokkurinn hlaut í síðustu borgarstjórnarkosningum 2 fulltrúa með 15,6% atkvæða, en eins og fram kom í könnun Viðskiptablaðsins virðist flokkurinn nú vera úti. Flokkurinn komst heldur ekki á þing eftir að hann sleit stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn, en fyrir hafði hann verið með 3 þingmenn.

„Við sitjum bara hjá eina umferð,“ segir Björt en í dag sitja þau Sigurður Björn Blöndal og Elsa Hrafnhildur Yeoman fyrir flokkinn í borgarstjórn þar sem þau eru í borgarstjórnarmeirihluta með VG, Pírötum og Samfylkingu undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa. 

Sjálf ákvað Björt ekki að bjóða sig fram í borginni, en skoðanakannanir hafa sýnt flokkinn langt frá því að eiga möguleika á að ná inn manni.

„Já, ég hef verið beðin um það en ég hef ekki hug á því á þessum tímapunkti, kannski og örugglega seinna, það kemur bara í ljós en þessi ákvörðun er fyrst og fremst persónulegs eðlis.“

Flokkurinn hyggst þó bjóða fram bæði sjálfur og í samstarfi við aðra í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Hveragerði og Akureyri.