Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,9% fylgi í nýrri könnun Fréttablaðsins um fylgi flokka sem framkvæmd var 3. og 4. október. Það er þó níu prósentustigum minna en flokkurinn mældist með í síðustu könnun blaðsins. Næststærsti flokkurinn eru Píratar, með 19,2% fylgi, en það helst nokkuð stöðugt milli kannanna.

Björt framtíð bætir hins vegar töluvert við sig milli kannanna og er það í samræmi við nýjasta þjóðarpúls Gallup, þar sem að flokkurinn stendur einnig betur að vígi. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins, fengi flokkurinn 6,9% ef gengið væri til kosninga í dag og myndi ná inn þingmanni.

Framsókn bætir við sig

Fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs helst nokkuð stöðugt milli kannanna, en flokkurinn mælist nú með 12,6%.

Framsóknarflokkurinn bætir við sig fylgi milli kannanna og eru nú með 12,6% fylgi, í kjölfar fjörugs flokksfundar um helgina.

Viðreisn með minna fylgi

Samfylkingin bætir við sig og fer úr 5,9% í seinustu könnun Fréttablaðsins og upp í 8,8%. Viðreisn mælist hins vegar með 6,9% fylgi en var með 7,3% í síðustu könnun.

Alþýðufylkingin mælist með 2,2% fylgi og Íslenska þjóðfylkingin með 2%.

Könnunin var framkvæmd daga 3. og 4. október og hringt var í 1.258 manns. Svarhlutfallið var 63,7% og alls tóku 58,6% afstöðu til spurningarinnar. Þetta er hærra svarhlutfall en í seinustu könnun Fréttablaðsins, þar sem að einungis 51,5% þeirra sem svöruðu tóku afstöðu.