Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem gerð var mánudag og þriðjudag, 24. og 25. október sýnir að Björt framtíð hefur tapað fylgi frá könnun sem gerð var í síðustu viku, en flokkurinn hefur farið úr 7,4% niður í 5,1% milli vikna.

Framsókn og Viðreisn bæta við sig

Samfylkingin stendur nokkurn veginn í stað milli vikna með 6% og síðan eru Viðreisn og Framsóknarflokkur nokkurn veginn jafnstórir en þeir bæta báðir við sig milli vikna. Fer Viðreisn úr 6,6% upp í 10,8% og Framsóknarflokkurinn úr 8,5% í 11,2%.

Vinstri grænir mælast með 16,4% fylgi en Píratar með 20,3% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist svo stærstur með 25,1% fylgi.

Þrír fjórðu taka afstöðu

Aðrir flokkar mælast samanlagt með 5,1% fylgi en fleiri taka afstöðu í þessari könnun en fyrri könnun sömu aðila, eða 76,6%.

Enn segjast 9% vera óákveðin, tæp 8% vilja ekki svara og rúm 6% segjast ekki ætla að kjósa eða skila auðu.