*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Innlent 29. apríl 2018 16:16

Bláa lónið andmælir Gray Line

Bláa lónið vísar á bug fullyrðingum forráðamanna Gray Line um meintar samkeppnishindranir Bláa lónsins.

Ritstjórn
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Haraldur Guðjónsson

Bláa lónið vísar á bug fullyrðingum forráðamanna Gray Line um að Bláa lónið sé að reyna að komast undan samkeppni með því að leyfa Gray Line ekki lengur að selja miða ofan í Bláa lónið. Gray Line sagði í gær að með þessu móti væri Bláa lónið að reyna að komast hjá samkeppni en Bláa lónið hefur stofnað eigin rútufyrirtæki í samstarfi við Hópbíla sem er að hluta til í eigu sömu aðila og Bláa lónið. 

„Gray Line hefur í krafti stærðar sinnar notið þeirrar sérstöðu undanfarin ár, umfram flesta aðra samkeppnisaðila þeirra á ferðaþjónustumarkaðnum, að hafa fengið að selja aðgang að Bláa Lóninu í gegnum rafræna beinlínutengingu við kerfi Bláa Lónsins hf.  Fjölmargir ferðaþjónustuaðilar hafa, þrátt fyrir sérstöðu Gray Line að þessu leyti, stundað hópferðaakstur til og frá Bláa Lóninu bæði með og án þess að selja aðgang að Bláa Lóninu samhliða,” segir í tilkynningu frá Bláa lóninu.

„Með því að fella niður rafræna beinlínutengingu Gray Line við kerfi Bláa Lónsins hf. er þannig þvert á móti verið að jafna stöðu Gray Line og annarra aðila á ferðaþjónustumarkaði sem eru í samkeppni við Gray Line,” segir í tilkynningunni.

Þá segir Bláa lónið að ákvörðun um að bjóða upp á eigin rútuferðir snúist fyrst og fremst að því að bjóða víðtækari þjónustu, tryggja samræmi og bæta upplifun, ásamt því að jafna flæði gesta og auka samþættingu og hagræðingu í rekstri Bláa lónsins.

Breytingar hafi legið fyrir í langan tíma og stjórnendum Gray Line að fullu kunnar.  Öllum ferðaþjónustuaðilum verði frjálst að stunda akstur til og frá Bláa lóninu og fyrirtækið muni áfram kappkosta að eiga gott samstarf við fjölmarga samstarfsaðila sína í íslenskri ferðaþjónustu að því er fram kemur í tilkynningunni.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim