Bláa Lónið hagnaðist um 2,3 milljarða króna á árinu 2015. Tekjur fyrirtækisins námu þá 7,9 milljörðum króna. Nýtt met var sett í fjölda heimsókna í Bláa Lónið á árinu en 919 þúsund manns heimsóttu þá laugasvæði fyrirtækisins. Þeta kemur fram í ársskýrslu Bláa Lónsins fyrir árið 2015. Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa Lónsins.

Eignir félagsins námu 76 milljónum evra í lok árs 2015 en það eru um það bil 10,6 milljarðar íslenskra króna. Af þessum 76 milljónum evra voru 36,3 þeirra eða 5 milljarðar króna skuldir, þar af 10 skammtímaskuldir og 25 langtímaskuldir, og eigið fé nam 39,8 milljónum evra eða 5,5 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er því 52%.

Veltufé frá rekstri nam 17,1 milljón evra eða tæpum 2,4 milljörðum króna og handbært fé frá rekstri nam þá tæplega 20 milljónum evra eða 2,8 milljörðum króna. Hlutafjáraukning varð um 1,7 milljarð króna en rúmlega 1,1 milljarða króna arður fyrir árið 2014 var greiddur út á árinu.

Stærstu eigendur Bláa Lónsins eru Hvatning slhf., HS Orka hf., Keila ehf., Hofgarðar ehf., Saffron Holding ehf. og Bogmaðurinn ehf. Saman eiga þessi fyrirtæki rúmlega 92% hlut í félaginu. Hlutafé Bláa Lónsins var aukið um 80 milljónir króna á árinu sem leið. 1,4 milljarða króna arður verður greiddur til hluthafa fyrir rekstrarárið 2015.