Bláa lónið skilaði enn og aftur methagnaði árið 2016 og hagnaðist um tæpar 23,5 milljónir evra. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Í fyrra nam hagnaður Bláa lónsins 15,8 milljónum evra og er því um 48% aukningu að ræða á milli ára.

Í ljósi mikillar styrkingar krónunnar var hagnaðaraukningin talsvert minni í krónum talið, eða 25%. Hagnaður ársins 2016 var tæpir 2,8 milljarðar króna eftir að hafa verið rúmir 2,2 milljarð­ ar árið áður. Á aðalfundi félagsins var samþykkt að greiða hluthöfum 13 milljónir evra, eða tæpan einn og hálfan milljarð króna, í arð.

Gríðarlegur vöxtur

Reksturinn batnaði talsvert á milli ára. Rekstrartekjur fóru úr 54,3 milljónum evra í 77,2 millj­ónir. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hækkaði um 32,4%, úr 21,3 milljónum evra í 28,2 milljónir. Líkt og í tilfelli hagnaðarins er aukningin minni þegar tekið er tillit til styrkingar krónunnar gagnvart evru, en hún fór úr 141,3 krónum í 119,13 krónur milli ára.

Bláa lónið hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár í takt við aukinn fjölda ferðamanna, enda kemur nánast hver einasti ferðamaður sem heimsækir Ísland við í lóninu ár hvert. Hagnaður fyrirtækisins var 8,3 milljónir evra árið 2013 og hefur því tæplega þrefaldast á þremur árum. Árið 2013 voru rekstrartekjur 31,8 milljónir evra og þær hafa því hækkað um 140% á þremur árum í evrum talið.

Hlutfallslega kom mesta tekjuaukningin í fyrra frá Silica Hótel, en þær rúmlega tvöfölduðust úr tveimur milljónum evra í 4,2 milljónir. 20 ný herbergi bættust við hótelið á síðasta ári. Veitingasala tók einnig kipp og jókst úr 10,7 milljónum evra í tæpar 18 millj­ónir. Tekjur af aðgangseyri jukust um nákvæmlega þriðjung, úr 33,3 milljónum evra í 44,4 milljónir.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur blaðsins geta nálgast blaðið með því að smella á Tölublöð á forsíðu.