Frystitogarinn Blængur NK - skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað - kom til Akureyrar hinn 17. október sl. og þar hafa starfsmenn Slippsins síðan unnið í skipinu. Í fyrstu lá skipið við bryggju á meðan unnið var í því en sl. þriðjudag fór það í flotkví.

Verkefnin eru af ýmsum toga, t.d. er skipt um togvindur og hluti vinnslubúnaðar endurnýjaður. Þá er sinnt hefðbundnum slippverkum og má þar nefna botnhreinsun, botnmálun og endurnýjun fórnarskauta ásamt því að botn- og síðulokar eru yfirfarnir. Gert er ráð fyrir að Blængur sigli heim að framkvæmdum loknum nk. laugardag.

Karl Jóhann Birgisson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar , segir að framkvæmdirnar við Blæng hafi gengið afar vel. „Verkið var mjög vel skipulagt hjá starfsmönnum Slippsins og allt hefur gengið eins og í sögu. Það hefur verið til fyrirmyndar hvernig að þessu hefur verið staðið,“ segir Karl Jóhann.