Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær eftir gagngerar endurbætur í Póllandi. Skipið lítur afar vel út og fer á næstu dögum til Akureyrar þar sem unnið verður við að koma upp búnaði á vinnsludekki.

Á heimsiglingunni frá Gdansk var Theodór Haraldsson skipstjóri og Geir Stefánsson fyrsti stýrimaður. Tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar á Neskaupstað hitti þá um borð í Blængi í morgun. Báðir töldu þeir að endurbæturnar á skipinu væru afar vel heppnaðar og það væri svo sannarlega tilhlökkunarefni að hefja veiðar á því. Þá sögðu þeir að hér væri um afar gott sjóskip að ræða.

„Þetta er sannkallað hörkuskip að öllu leyti“, sagði Theodór. „Það var allt endurnýjað í brúnni og vinnuumhverfið þar er eins og í nýjustu skipum. Þá voru íbúðirnar endurnýjaðar og eru þær orðnar nútímalegar og vistlegar. Einnig var sett hliðarskrúfa í skipið og það allt sandblásið og málað hátt og lágt auk fleiri umbóta sem unnið var að. Í skipinu er líkamsræktaraðstaða og komið var fyrir heitum stórum nuddpotti sem verður örugglega vel nýttur. Á heimleiðinni var gangur skipsins kannaður og það fór í 16,7 mílur. Það verður gaman að veiða á þetta skip,“ sagði Theodór að lokum.