Lloyd Blankfein, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður fjárfestingabankans Goldman Sachs, tilkynnti í morgun að hann hygðist stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri bankans í október, og sem stjórnarformaður í árslok.

Lærisveinn hans, David Solomon, mun taka við af honum í báðum hlutverkum, en hann var staðfestur sem arftaki hans í mars.

„Það hefur alltaf verið erfitt fyrir mig að ímynda mér að hætta. Þegar illa gengur, getur maður ekki hætt, en þegar vel gengur, vill maður ekki hætta. Ég get ekki sagt að ég vilji hætta í dag, en á einhvern hátt finnst mér það vera rétti tíminn.“ Sagði Blankfein.

Blankfein tók við bankanum á hápunkti góðærisins fyrir hrun, þegar Wall Street var á toppi viðskiptalífsins, og Goldman á toppi Wall Street. Margir gamlir, stórir og virtir bankar fóru annaðhvort hreinlega í gjaldþrot, eða voru komnir á heljarþröm. Goldman tókst hinsvegar að komast nokkuð vel í gegn um hrunið, þótt vissulega hafi hann tekið á sig högg.

Bankinn fékk í kjölfarið á sig nokkuð slæmt orðspor, og fyrir mörgum var hann spillingarfen Wall Street holdi klætt, og Blankfein sjálfur nokkuð umdeildur. Bankinn þurfti að greiða 550 milljón dollara sekt árið 2010, um 67 milljarðar króna á gengi þess tíma.

Hann komst þó í gegn um erfiðleikana, og frá hruni hefur hlutabréfaverð hans hækkað töluvert meira en keppinautanna. Blankfein hættir því með nokkuð jákvæða ímynd, en hún mun endanlega ráðast þegar breytingar í rekstri bankans sem hann hóf og klárast fljótlega ganga í gegn, og í ljós kemur hversu vel þær heppnuðust.

Blankfein gefur lítið upp um hvað taki við hjá honum, en margir fyrrverandi framkvæmdastjórar Goldman Sachs hafa síðar orðið fjármálaráðherrar Bandaríkjanna, þar á meðal fyrirrennari hans, Hank Paulson, sem hætti hjá Goldman til að taka við ráðherrastólnum.