Kristrún Frostadóttir aðalhagfræðingur Kviku segir að endurskoða þurfi áherslur á Íslandi í launamálum í samræmi við aðstæður og þróun erlendis að því er fram kemur í viðtali við hana í Sprengisandi á Bylgjunni .

Segir hún að það blasi við að launum erlends vinnuafls hér á landi hafi verið haldið niðri, þrátt fyrir gríðarlega manneklu. Kristrún segir að í mati á verðbólgu hér á landi hafi verið um of einblínt á þætti eins og kjarasamninga, húsnæðismarkað og olíuverð, en rætt var við Kristrúnu á Bylgjunni vegna greinar sem hún skrifaði í Vísbendingu um málið.

Kristrún sem segir erlenda vinnuaflið hafa verið gríðarlegan öryggisventil fyrir Íslendinga sem hafi ásamt lágri alþjóðlegri verðbólgu, lágu olíuverði, styrkingu krónunnar og ferðaþjónustunni unnið með þjóðinni og þá væntanlega gegn verðbólgunni.

Pólverjar flytja inn Úkraínumenn

En Kristrún segir að það þurfi að endurskoða hvar þurfi að gefa í og hvar stíga á bremsuna nú vegna launaþróunar annars staðar.

Pólverjar sem dæmi sem búa á hinum Norðurlöndunum eru með mun meiri kaupmátt en samlandar þeirra hér á landi, en heima í Póllandi er nú blússandi hagvöxtur með tilheyrandi launavexti en atvinnuleysi hafi ekki verið jafnlítið frá falli kommúnismans.

„Í dag erum við með um fimmtán þúsund manns í vinnuaflinu sem koma frá austur Evrópu. Þetta er mjög há tala og hefur aldrei verið jafn há,“ segir Kristrún sem bendir á að nú séu Pólverjar farnir að flytja inn Úkraínumenn til að mæta eftirspurn heima í Póllandi.

„Ef við erum raunsæ þá þarf stór hluti að koma erlendis frá. Ég er ekkert endilega að spá því að þessu fólki muni fækka en ef við erum að sjá svona mikla fjölgun þá er ekkert óeðlilegt að þetta fólk geri meiri kröfur, sérstaklega ef það verður meðvitaðra um að það er kannski verið að borga þeim lægri laun en líka vegna þess að það getur sótt sér betri tækifæri annars staðar.“