Drífa Snædal segir verðtrygginguna, eins umdeild og hún er, vera mikilvægan valkost fyrir marga, sem þurfi að fara varlega í að afnema. „Ég hef sagt það að mér finnst skynsamlegt að stefna að því að afnema verðtrygginguna, það er enginn sérstaklega hrifinn af henni. Ég vil hins vegar ekki gera það þannig að við sjáum ekki fyrir hvað tekur við. Þetta hefur gert lágtekjufólki kleift að eignast húsnæði á Íslandi. Við erum ekki hrifin af því að svipta fólk möguleikum á því að eignast íbúð.“

Áhrif afnáms á þá sem þegar skuldi verðtryggt þarf einnig að skoða gaumgæfilega að hennar mati. „Ég hef engan áhuga á því að skilja launafólk á Íslandi með sín íbúðarlán eftir á köldum klaka,“. Með því á hún við að við taki óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, en greiðslubyrði slíkra lána getur sveiflast mikið. „Það þarf að tryggja að vextirnir rjúki ekki upp úr öllu valdi.“

Þótt blátt bann við verðtryggingu sé ekki rétta leiðin segir Drífa ýmislegt mega endurskoða varðandi framkvæmd hennar. „Við búum við það að neysluverðsvísitalan ræður því hvernig skuldirnar okkar þróast. Verðtryggðar skuldir heimilanna hækka því um leið og verðbólga fer af stað. Við höfum talað um að afnema verðtryggingu á neytendalán, lán til skemmri tíma en 7 ára. Það er líka verið að tala um að taka húsnæði út úr vísitölunni. Við getum ekki veitt okkur þann lúxus að horfa fram hjá samsetningu neysluverðsvísitölunnar á meðan hún hefur svo gríðarleg áhrif á skuldir einstaklinga og fjölskyldna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .