Lánardrottnar félagsins Bleiksstaða fá ekkert upp í um 11,8 milljarða króna kröfur sínar á hendur félaginu. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 24. október í fyrra og lauk skiptum 1. febrúar síðastliðinn. Lýstar kröfur námu 11.797 milljónum króna og fékkst ekkert upp í þær.

Bleiksstaðir voru í 80% eigu Holtasels, sem er í eigu verktakafyrirtækisins Eyktar, en VBS Fjárfestingarbanki átti afganginn. Félagið á Blikastaðalandið sem er á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og hefur verið deilt um virði landsins. Gert var ráð fyrir því að á Bliksstaðalandinu yrðu svokallaðar athafnalóðir ásamt íbúðabyggð með 1.800 íbúðum, bæði blandaðri byggð einbýlishúsa, sérbýla og fjölbýla.

Kaupþing lánaði Bleiksstöðum fyrir kaupum á Blikastaðalandinu í byrjun árs 2008 og gjaldfelldi Arion banki lán þess upp á 9,8 milljarða króna rúmu ári síðar. Viðræður hafa staðið yfir um framtíð Bleiksstaða síðan þá. Bankinn óskaði eftir því 23. maí í fyrra að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Eykt keypti Blikastaðalandið ásamt VBS Fjárfestingarbanka af ÍAV í gegnum félagið Holtasel í febrúar árið 2008 á 65 milljónir evra, rúma 6,2 milljarða á þávirði. Lánið hefur stökkbreyst síðan þá og standa 65 milljónir evra nú í 10,3 milljörðum íslenskra króna. Annað dótturfélaga Eyktar sem tengist Holtaseli var Eykt íbúðir ehf. Það félag reisti turninn við Höfðatorg.