Tæplega 974 þúsund erlendir ferðamenn komu til landsins í gegnum Leifsstöð á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra höfðu tæplega 700 þúsund ferðamenn komið til landsins. Aukningin á milli ára nemur því 39%. Þegar skoð­aðar eru tölur fyrstu sex mánuði hvers árs þá hefur hlutfallsleg aukning erlendra ferðamanna aldrei verið jafn mikil og nú.

Ef fram heldur sem horfir gæti heildarfjöldi ferðamanna á þessu ári farið yfir 2,4 milljónir. Er þá miðað við að þessi 39% aukning haldi áfram. Einnig er tekið inn í reikninginn að á síðustu tveimur árum hefur þróunin verið sú að 60% ferðamanna koma á seinni helmingi ársins.

Að þessu sögðu þá er ýmislegt sem bendir til þess að mjög sé að hægja á komum ferðamanna til landsins. Þetta sést ef rýnt er nánar í tölurnar. Í janúar síðastliðnum komu 75% fleiri ferðamenn til landsins en sama mánuð árið 2016. Í febrúar nam aukningin 47% miðað við sama mánuð árið á undan. Í mars var aukningin 45% og í apríl 62%. Þessi aukning er miklu meiri en hún var á milli þessara mánaða á árunum 2015 og 2016. Þá var hún á bilinu 24 til 43%.

Mikil breyting í maí og júní

Sú mikla hlutfallslega fjölgun ferðamanna, sem var fyrstu fjóra mánuði ársins hélt ekki áfram í byrjun sumars. Í maí komu 146 þúsund ferðamenn til landsins, sem er 17% aukning frá maí í fyrra og í júní komu 222 þúsund ferðamenn til landsins, sem er 19% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Er þetta nokkuð áhugavert því þessir mánuðir marka byrjun háannatímabilsins í ferðaþjónustunni hérlendis. Ef tölur milli áranna 2015 og 2016 eru skoðaðar kemur í ljós að í maí 2016 fjölgaði ferðamönnum um 37% frá sama mánuði árið 2015 og í júní í fyrra nam aukningin 36% frá fyrra ári.

Þessi þróun þarf ekki að vera neikvæð fyrir ferðaþjónustuna því hún gæti þýtt að árstíðasveiflurnar, sem sögulega hafa verið miklar, séu að minnka. Það á eftir að koma í ljós.

Áhugavert er að skoða fjölda ferðamanna eftir þjóðernum. Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir. Á fyrstu sex mánuðum ársins komu tæplega 260 þúsund ferðamenn frá Bandaríkjunum eða 59% fleiri en á sama tíma í fyrra. Næstfjölmennastir eru Bretar en um 177 þúsund breskir ferðamenn komu á fyrri helmingi ársins, sem er aftur á móti einungis 8% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Til samanburðar nam aukningin tæplega 36% á milli fyrstu sex mánaða ársins 2015 og 2016.

Fjöldi ferðamanna eftir þjóðernum - úttekt ferðaþjónusta
Fjöldi ferðamanna eftir þjóðernum - úttekt ferðaþjónusta
Spánverjarnir koma

Ferðamálastofa tekur sérstaklega saman tölur yfir ferðamenn frá sautján löndum. Mesta aukningin á milli ára er í komum spænskra ferðamanna en hún nam 122% á fyrri helmingi ársins. Rússneskum ferðamönnum hefur einnig fjölgað mikið eða sem nemur 103%.

Í einu tilfelli hefur ferðamönnum fækkað á milli ára. Tæplega 6% færri Norðmenn komu til landsins á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Þessi þróun hefur reyndar verið í gangi í nokkur ár því á fyrri hluta ársins 2016 fækkaði norskum ferðamönnum um 1,3% samanborið við sama tímabil 2015 og á milli áranna áranna 2014 og 2015 fækkaði þeim um 2,7%. Þetta skýrist líklega af því að efnahagsástandið í Noregi hefur verið í lægð. Frá því í janúar 2013 hefur íslenska krónan styrkst um 86% gagnvart norsku krónunni. Af þeim ellefu gjaldmiðlum sem Viðskiptablaðið skoðaði hefur einungis einn stað­ið sig verr gagnvart krónunni en það er rúblan.

Gengi krónunnar - úttekt ferðaþjónusta
Gengi krónunnar - úttekt ferðaþjónusta

Posarnir hikstuðu

Á fyrstu fimm mánuðum ársins nam kortavelta erlendra ferðamanna tæplega 94 milljörðum króna, sem er 26% aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra í nokkur ár. Sem dæmi þá jókst kortaveltan um 57% á milli fyrstu fimm mánaða ársins 2015 og 2016 og 41% á milli áranna 2014 og 2015. Á árinu 2014 nam aukningin 28% frá árinu á undan.

Í janúar, febrúar, mars og apr­ íl á þessu ári jókst veltan töluvert samanborið við sömu mánuði árið 2016, eða um 28 til 50%. Í maí varð þróunin svipuð og lýst var hér á undan með fjölgun ferðamanna. Í maí var eins og posar landsins hefðu allir hikstað því aukningin frá árinu á undan nam einungis um 7%. Fljótlega birtast tölur fyrir júní og verður einkar áhugavert að sjá þær.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna - úttekt ferðaþjónusta
Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna - úttekt ferðaþjónusta

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .