Ferðaþjónustuaðilar, bæði hérlendis og erlendis, segja blikur á lofti vera vegna bókunarstöðunnar í sumar. Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, segir bókunarstöðu vera mun lakari í ár en á sama tíma í fyrra.

„Það er þónokkur samdráttur í bókunum, mismunandi eftir markaðssvæðum en hann er meiri í skipulögðum hópferðum en í einstaklingsferðum,“ segir Sævar. „Það má alveg tala um 30% samdrátt. En það er erfitt að slá þessu föstu á þessum tíma því við erum í miðju bókunarferlinu. Við höfum til dæmis séð aðeins betri bókanir í vetur en yfir þennan háannatíma stefnir í verulega fækkun eins og staðan er núna,“ segir Sævar.

Þessi samdráttur getur þó að einhverju leyti stafað af breyttri bókunarhegðun því fólk bóki nú síðar en áður. Samdrátturinn er eftir sem áður töluverður. „Við finnum að það er breyting í loftinu,“ segir Sævar. Fyrir sumarið 2018 eru ferðaþjónustufyrirtæki búin að ýta öllum verðhækkunum út í verðlag, bæði vegna launahækkana og gengisþróunar að ógleymdum virðisaukaskatti. Hann segir þó bót í máli að fjöldi gesta segi ekki alla söguna því framlegð geti aukist.

„Ef kollegarnir hafa allir rétt verðin af og verðlagt sig eins og þarf þá erum við kannski að fá betri framlegð af hverjum ferðamanni. Í febrúar og mars er alltaf erfitt að segja hvernig fer en ég hef heyrt í mörgum af mínum kollegum og þetta er nokkurn veginn það sem menn eru að tala um. Það er alveg ljóst að það er samdráttur. Við sjáum að Ísland er orðið einhvers konar tilboðsland hjá þekktum erlendum ferðaskrifstofum á meðan Grænland og Ekvador eru á fullu verði. Það segir sína sögu,“ segir Sævar.

Flókin staða

Elín Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna, segir stöðuna engan veginn einfalda. Fjöldi viðskiptavina aukist en veltan stendur í stað. „Við erum fyrst og fremst að horfa á breytingar á ferðaþjónustu á Íslandi og breytingar á viðskiptavinunum. Ég get ekki sagt með skýrum hætti að það sé samdráttur í fjölda en það eru breytingar á því hvað er verið að kaupa,“ segir Elín. Hún segir ferðamenn kaupa bæði styttri og ódýrari ferðir.

„Það gildir bæði um dagsferðir og margra daga ferðir. Í lengri ferðunum er mjög skýrt að fólk kaupir minni afþreyingu. Bókunarmynstrið er líka að breytast. Það hefur verið nokkuð svipað frá ári til árs, þangað til í fyrra. Þá kemur allt annað mynstur,“ segir Elín. Hún telur tvær ástæður fyrir því, annars vegar breytingar á þeim hópum sem koma til Íslands og að þegar gengi krónunnar styrktist fyrir ári fór Ísland „gegnum þakið“ fyrir sína gömlu markaði.

„Þetta eru mjög krefjandi aðstæður og við erum áhyggjufull, ég ætla ekki að leyna því. Við höfum samt verið að í 25 ár og þetta ekki í fyrsta skipti sem við sjáum miklar sviptingar í ferðaþjónustu á Íslandi. Maður þarf bara að vera óendanlega sveigjanlegur – og það er krefjandi,“ segir Elín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .