Í frétt á Bloomberg er rætt um áhyggjur íslenska fiskiðnaðarins af styrkingu krónunnar. Er þar meðal annars rætt við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra hjá Samtökum fyrirtækja í Sjávarútvegi.

Styrking krónunnar hefur áhrif á rekstur

„Styrking krónunnar hefur mikil áhrif í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja og getur haft áhrif á afrakstur þeirra,“ segir Heiðrún Lind í samtali við Bloomberg.

„Þetta er áhætta sem þarf að skoða sérstaklega, og ef þörf krefur, vinna með.“

Enn fimmtungur af útflutningi

Í greininni er sagt að þrátt fyrir að sjávarútvegur sé ekki lengur aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, ferðamennska og áliðnaður hafi tekið þar yfir, þá sé hlutfall hans enn um fimmtungur af öllum útflutningi.

Jafnframt er sagt að hann hafi styrkt stöðu sína á árunum eftir hrun, en nú sé hann að finna fyrir styrkingu krónunnar í kjölfar þess að efnahagslífið sé að rétta úr kútnum.

11% styrking krónunnar

Íslenska krónan hafi styrkst um meira en 11% gagnvart bæði evru og Bandaríkjadal á síðustu 12 mánuðum og er búist við að hún muni styrkjast um allt að 5% á árinu 2017, og er þar vísað í greiningu Íslandsbanka.

Einnig er vísað í ákvörðun Seðlabankans um að lækka stýrivexti niður í 5,25% í ágúst, en þrátt fyrir það séu stýrivextirnir þeir hæstu sem um getur í Vestur Evrópu.

Stefna Pírata veldur áhyggjum

Heiðrún Lind telur mögulegt að lækka vexti enn meira á stýrivaxtarákvörðunarfundi bankans sem verður á miðvikudag.

Einnig er vísað í áhyggjur í sjávarútveginum af komandi kosningum og loforðum næst stærsta flokksins samkvæmt skoðanakönnunum, Pírata, um að bjóða út aflaheimildir og þannig valda mun meiri óvissu í greininni.