Nokkrir reiðir foreldrar í Bandaríkjunum halda því fram að litlu „Minions“ leikföngin frá McDonald‘s blóti. Hefur málið vakið talsverða reiði þar í landi, en þessir litli gulu kallar, sem á íslensku eru kallaðir Skósveinarnir, eru afar vinsælir meðal barna og hefur McDonald's verið að gefa litlar fígúrur með barnaboxum sínum í tilefni kvikmyndarinnar um krílin vinsælu.

Skósveinarnir urðu fyrst frægir í myndunum „Aulinn ég“ og þykja þeir afar krúttlegir og skemmtilegir. Þeir tala furðulegt tungumál sem enginn skilur en af og til ratar eitt og eitt enskt orð með. En nú eru foreldrar í miklum mæli að setja myndbönd inn á YouTube þar sem sagt er að litlu krílin blóti. Margir virðast þeim sammála og málið hefur vakið mikla athygli.

Nánar tiltekið er því haldið fram að litlu skósveinarnir séu að segja „What the F%#K“.

CNN fjallaði um málið , en McDonald‘s harðneitar því að litlu skósveinarnir séu að blóta. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að Skósveinarnir tali tungumál sem byggi ekki á neinu öðru máli og að öll líkindi með ensku séu algerlega tilviljunum háð.