Franska ríkisstjórnin vill nú herða eftirlit með landamærum sínum, og láta meðlimi Evrópusambandsins gangast undir sams konar athuganir og borgarar annarra ríkja þurfa að þola.

Til umræðu hefur einnig komið að fimm lönd innan ESB myndi með sér " smærri-Schengen " og herði svo eftirlit með ytri landamærum sínum. Löndin umræddu eru Þýskaland, Austurríki, Belgía, Lúxemborg og Holland.

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, sagði á fimmtudag að það væri mikilvægt og tímabært að Evrópubúar vakni til lífsins og verjist hryðjuverkamönnunum sem ógna álfunni.

Umræðan um hert landamæraeftirlit sprettur upp í kjölfar Parísarásanna svokölluðu, þar sem 129 manns létust í árás ISIS. Fleiri hundruð manns særðust svo einnig í árásinni.

Í ljós kom að höfuðpaurinn og fleiri vitorðsmenn hans höfðu ferðast óséðir inn í Frakkland. Hryðjuverkamennirnir gengust ekki undir neitt landamæraeftirlit.