Formenn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR og Eflingar - stéttarfélags hittust á vinnufundi í morgun þar sem ræddar voru samstilltar verkfallsaðgerðir á Suðvesturhorninu. Félagssvæði þessara félaga eru samliggjandi og að hluta til sameiginleg. Þar er að finna miðstöðvar margra helstu atvinnuvega landsins, til dæmis uppskipun stóru skipafélaganna og flugsamgöngur, þar á meðal flugfraktina. Að auki má nefna einn stærsta ferðamannastað landsins, Bláa lónið. Formenn félaganna voru sammála um að aðgerðir þurfi að hefjast sem allra fyrst. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Guðbjörg Kristmundsdóttir, sem nýlega tók við formennsku í VSFK, lýsti ánægju með fundinn. „Í mínum huga er mikilvægt að verkalýðsfélögin á sama landssvæði sýni samstöðu. Um er að ræða eitt og sama atvinnusvæði að stórum hluta og kjörin sem verkafólk býr við á svæðinu mjög samtengd. Einnig er að koma á daginn að það er nauðsynlegt að stilla saman verkfallsaðgerðir til þess að vekja viðsemjendur okkar af svefni,“ sagði Guðbjörg.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði mikinn styrk felast í samstillingu aðgerða milli félaga á Suðvesturhorninu: „Frestunaráráttan hjá Samtökum atvinnulífsins er að verða óbærileg. Fyrsta átyllan til að forðast umræður við okkur um launaliðinn voru hugmyndir þeirra um vinnutímabreytingar. Nú er það Wow Air. Hvað næst? Ég tel það mikið ábyrgðarleysi hvernig SA hafa dregið lappirnar mánuðum saman. Er það til of mikils mælst að hefja umræður um launakröfur okkar, nú þegar brátt er hálft ár liðið frá því að við settum fram kröfugerð okkar og verkfallsaðgerðir hafa staðið í á þriðju viku?“

Hörður Guðbrandsson, formaður VLFG, sagði að ákveðnir atvinnurekendur á svæðinu hafi gert sér að leik að dreifa félagsaðild á vinnustöðum. „Í Bláa lóninu, svo dæmi sé nefnt, er starfsmönnum nokkuð jafnt skipt milli Eflingar, VSFK og míns félags. Er þetta hugsað til að gera verkfallsaðgerðir erfiðari? Hvað sem því líður, með samstöðu og samstillingu geta félögin náð fram tilætluðum áhrifum af aðgerðum. Ég fagna samstarfi þessara félaga.“

Verslunarmannafélag Suðurnesja samþykkti að sameinast VR í nýlegri atkvæðagreiðslu og mun sameiningin væntanlega fá samþykki aðalfundar VR í kvöld. Ragnar Þór Ingólfsson sagði mikinn styrkleika felast í sameiningu félaganna og stækkuðu félagssvæði. „Yfirlýsingar forsvarsmanna ferðaþjónustugeirans og annarra sérhagsmunaafla um að ekki sé ráðlegt að hækka laun eru eitthvað sem við munum að sjálfsögðu svara af fullri hörku. Íslenskt efnahagslíf hefur allra burði til að tryggja almenningi mannsæmandi kjör, slíkt er sjálfsögð sanngirniskrafa. Samstarf félaganna eflir trú mína á að ásættanleg niðurstaða náist fyrr en seinna,“ sagði Ragnar Þór.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sagðist binda miklar vonir við breikkað samstarf um aðgerðir. „Slíkt samstillt átak hlýtur að fá SA til að koma loksins að borðinu af alvöru,“ sagði Vilhjálmur. Hann sagði undirbúning aðgerða á sínu félagssvæði vera hafinn og að það yrði umræðuefni stjórnarfundar félagsins á morgun.