Eftir að hafa lækkað um 0,5 prósentustig á síðasta ári er ekki útlit fyrir að tryggingagjaldið verði lækkað meira í bráð, þrátt fyrir mjög lágt atvinnuleysi að því er Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir í samtali við Vísi .

„„Nei, við höfum boðað það að við munum taka það til skoðunar síðar á kjörtímabilinu en það er ekki akkúrat núna. Það er fleira sem fellur þarna undir,“ segir Bendikt. „Til dæmis almannatryggingaframlag og þar hafa útgjöldin aukist.“

Nú er tryggingagjaldið 6,85% eftir lækkun 1. júlí síðastliðinn, en Samtök atvinnulífsins hafa síðan ítrekað minnt á það að þau hafi skrifað undir kjarasamning 21. janúar 2016 við ASÍ og aðildarfélög þess á grundvelli samkomulags við stjórnvöld um að tryggingagjaldið yrði lækkað á næstu árum.

Átti samkvæmt samkomulaginu gjaldið að lækka um sömu prósentutölu á þessu ári og því næsta, svo það myndi ná sama stigi og það var fyrir bankahrunið.